Fre6mri Deildará er lítil en afskaplega falleg á sem rennur frá Fremra Deildarvatni niður í Ytra Deildarvatn.

Veiðimenn þurfa þó að leggja nokkuð á sig til að veiða hana þar sem engir vegir eru upp með henni. Bílnum er lagt við Ytra Deildarvatn og þaðan ganga veiðimenn norðan með vatninu þar til komið er að Fremri Deildará. 

Þar eru leyfðar 2 stangir og geta þær fylgt veiðileyfum í Deildará. Veiðimenn í Deildará þurfa þó að óska sérstaklega eftir því til að tryggt sé að áin sé laus þegar haldið er til veiða.

Fremri Deildará er um það bil 8 km löng og er afar gjöful silungsveiðiá. Þar veiðist bæði urriði og bleikja. Neðst í ánni er 200 metra kafli þar sem áin rennur afar rólega að Ytra Deildarvatni.

Á heitum sumardögum safnast óhemjulegt magn af silung á þennan kafla og sjást stundum bleikjutorfur sem telja hundruð fiska. Urriða er einnig víða að finna.

Í neðri hluta árinnar er að finna nokkra ágæta veiðistaði og þeim fjölgar eftir því sem ofar dregur. 

Fyrir menn sem hafa gaman af silungsveiðum getur það verið stórskemmtileg skemmtun að taka daginn snemma og ganga upp að Ytra Deildarvatni. Dagurinn er síðan nýttur til að veiða sig niður ánna með nettum græjum. Fiskurinn er oft nokkuð tökuglaður og við réttar aðstæður er hægt að gera góða veiði með þurrflugum. Hefðbundnar straumflugur og púpur virka einnig að sjálfsögðu. 

Bleikjan í Fremri Deildará er yfirleitt á bilinu 1-2 pund en urriðinn getur orðið stærri. Þegar líður á haustið geta veiðimenn einnig átt fínan möguleika á að krækja í lax.