11Ölduá er önnur tveggja hinna svokallaðra fremri ársvæða. Ölduá er heldur minni en Fremri Deildará og rennur ofan af Melrakkasléttu í Ytra Deildarvatn. 

Aðgengi að ánni er ekki sérstaklega gott en þó mun betra en að Fremri Deildará. Hægt er að keyra að neðri hluta árinnar þar sem hún rennur í Ytra Deildarvatn og þar má finna nokkra veiðistaði sem halda oft talsvert af fiski.

Skemmtilegast er þó að láta keyra sig upp að efri hluta árinnar og veiða sig svo alla leið niður með ánni. Sú vegalengd er um 6 km og geta menn yfirleitt átt von á að gera góða silungsveiði.

Fiskurinn er grimmur í töku og þegar hann er yfirborðstöku gefa þurrflugur oft góða raun.

Líkt og á við um Deildará og Fremri Deildará hafa rannsóknir fiskifræðing sýnt fram á að lífríki Ölduár er gróskumikið. Þar eru kjörin uppeldisskilyrði fyrir seiði og skilar það sér í afar áhugaverðri silungsveiði. 

Bleikjan er yfirleitt á bilinu 1-2 pund en urriðinn getur orðið stærri. Þegar líða tekur á haustið er einnig möguleiki að krækja í lax í ánni.